Eignaumsjón er leiðandi fyrirtæki í þjónustu við húsfélög og rekstrarfélög atvinnuhúsa og hafa umsvif félagsins vaxið jafnt og þétt á þeim 23 árum sem það hefur verið starfandi. Áhersla er lögð á faglega nálgun, öryggi, gæðamál og skýra verkferla en fyrirtækið er í dag með samningsbundna þjónustu við um 800 félög af öllum stærðum og gerðum með um 18 þúsund íbúðum/fasteignum.
,,Við viljum vera hagnýtt verkfæri fyrir fasteignaeigendur og leiðandi í allri umsjón og þjónustu við rekstur fasteigna, hvort sem um íbúðar- eða atvinnuhúsnæði er að ræða. Við erum brautryðjendur í þessari þjónustu hérlendis, sem var ekki fyrir hendi þegar Eignaumsjón tók til starfa árið 2000 og erum leiðandi á þessum markaði,“ segir Daníel Árnason framkvæmdastjóri.
Þjónustuleiðir í takt við þarfir hvers félags
Þrjár mismunandi þjónustuleiðir eru í boði fyrir húsfélög, allt eftir því hvers mikla þjónustu þau vilja nýta sér. Í leið 1 er vel haldið utan um öll fjármál húsfélagsins, bókhald og gerð ársreikninga. Í leið 2 bætist allt utanumhald um aðalfundi við fjármálaþjónustuna og í þjónustuleið 3 bætist við útvegun þjónustu og tilboða í gegnum þjónustuver Eignaumsjónar, s.s. vegna þrifa, lóðahirðu, trygginga o.fl.
„Þessi þjónusta er líka í boði fyrir rekstrarfélög atvinnuhúsa. Í atvinnuhúsum tökum við einnig að okkur að vera framkvæmdastjóri og sérsníðum þá lausnir fyrir hvert verkefni til að tryggja að allir sem hafa hagsmuna að gæta sitji við sama borð,“ bætir Daníel við.
Vaxandi þörf fyrir sérþjónustu af ýmsu tagi
Til að koma til móts við óskir viðskiptavina um aukið eftirlit með sameign húsfélaga byrjaði fyrirtækið fyrir sex árum að bjóða upp á Húsumsjón, sem er sérþjónusta fyrir bæði stærri húsfélög og atvinnuhúsnæði. Þjónustan kemur í stað hefðbundinnar húsvörslu og er hagkvæm og skynsamleg lausn. Fagmaður fer þá reglulega yfir ástand sameignar hússins, gerir nauðsynlegar úrbætur og fylgist með orkunotkun sem og öðrum kerfum og búnaði eignarinnar, sem þarf að vera í góðu lagi.
„Aðstoð vegna hleðslu rafbíla með hagsmuni húsfélaga að leiðarljósi er önnur sérþjónusta sem nýtur líka vaxandi vinsælda hjá okkur, í takt við hraða fjölgun rafmagnsbíla. Við lítum á rafhleðslukerfi sem eitt af grunnkerfum húsfélaga og eykur bæði virði fasteigna og sölulíkur. Rafbílahleðsluþjónusta okkar fyrir húsfélög uppfyllir lagalegar skyldur húsfélaga vegna hleðslubúnað rafbíla og nær til bæði ástandsgreiningar, öflunar tilboða, ákvörðunartöku, reksturs og sjálfvirkrar innheimtu með réttri skiptingu kostnaðar milli húsfélags og notenda
Daníel nefnir einnig íbúðaumsjón, splunkunýja þjónustuleið fyrir fasteignaeigendur á höfuðborgarsvæðinu sem búsettir eru erlendis eða annars staðar á landinu. Þjónustan er sérsniðin að þörfum íbúðareiganda og nær til bæði reglubundins eftirlits og reksturs eignarinnar.
Örugg gagnavarsla og öflug miðlun upplýsinga
Framkvæmdastjórinn segir það áskorun að uppfylla þarfir viðskiptavina Eignaumsjónar um faglega og skilvirka afgreiðslu. Því hefur í takt við aukin umsvif verið byggt upp sérhannað, öflugt tölvukerfi fyrir starfsemina með áherslu á skilvirkni, hagkvæmni og örugga geymslu gagna.
,,Tölvukerfið hjálpar okkur líka að halda vel utan um öll þau fjölbreyttu verkefni sem við erum að glíma við dagsdaglega fyrir viðskiptavini okkar. Við leggjum mikla áherslu á að miðla upplýsingum til eigenda og stjórna, bæði með beinum samskiptum í gegnum þjónustuverið og starfsfólkið, sem og á samfélagsmiðlum, heimasíðunni okkar og í Húsbókinni; mínum síðum eigenda, sem hefur mælst vel fyrir hjá okkar viðskiptavinum,“ segir Daníel. Hann bætir við að það sé fyrirtækinu líka metnaðarmál að bjóða viðskiptavinum upp á góða fundaraðstöðu á skrifstofunni á Suðurlandsbraut 30 sem nýtist vel þegar aðalfundir húsfélaga fara fram, frá áramótum til aprílloka.
„Hjá okkur starfar traust og öflugt starfsfólk og gaman að segja frá því að sl. tvö ár höfum við verið í hópi 15 meðalstórra fyrirmyndarfyrirtækja VR. Fjárhagsleg staða fyrirtækisins er góð, eigið fé jákvætt og um 25% vöxtur hefur verið í starfseminni undanfarin ár. Þá vil ég líka nefna að við höfum staðist úttektir endurskoðenda á innri ferlum fjármála og öryggi kerfa, jafnframt því sem fyrirtækið er með starfsábyrgðartryggingu hjá viðurkenndu tryggingarfélagi og því tilbúið að mæta bótaskyldu sem á það gæti fallið.“
Til þjónustu reiðubúin
Framkvæmdastjóri Eignaumsjónar er þess fullviss að þjónusta við fasteignaeigendur haldi áfram að vaxa og dafna og segir fyrirtækið tilbúið að mæta þeim áskorunum, eins og það hafi gert í rúmlega tvo áratugi.
„Fjöleignarhúsum fjölgar, þau verða sífellt stærri og flóknari og mikilvægt er fyrir bæði byggingaraðila og nýja eigendur að ná utan um þessi stóru samfélög strax í byrjun með skipulögðum og formföstum hætti. Þar getum við lagt lið og erum til þjónustu reiðubúin,“ segir Daníel Árnason, framkvæmdastjóri að lokum.
Viðtal við framkvæmdastjóra Eignaumsjónar, í Sóknarfæri í ágústlok 2023 (bls. 24-25).