Fólkið okkar – Inga Björg
Inga Björg Kjartansdóttir hóf störf í nýstofnuðu þjónustuveri Eignaumsjónar í ársbyrjun 2019 en færði sig fljótlega um set yfir á fjármálasvið og er nú ein af fjórum gjaldkerum félagsins.
„Störf okkar gjaldkeranna eru skemmtileg og annasöm allan ársins hring þó svo sérhæft greiðslukerfi og verkbókhald, sem tekur á móti rafrænum reikningum og flýtir fyrir afgreiðslu þeirra, spari okkur umtalsverða vinnu. Þó rafrænum reikningum hafi fjölgað gífurlega upp á síðkastið eru þó ekki allir reikningar orðnir rafrænir og þurfum við því stundum að fá þá afhenta og vinna síðan í framhaldinu úr athugasemdum, ýmist frá greiðendum og/eða kröfuhöfum.“
Inga er Reykvíkingur, ólst upp í Breiðholti og Grafarvogi og býr í dag í Breiðholti ásamt eiginmanni og þremur dætrum á aldrinum eins til níu ára. Hún er með stúdentspróf og verslunarpróf frá Borgarholtsskóla og BSc gráðu í viðskiptafræði, með áherslu á stjórnun og markaðsfræði, frá Háskólanum á Akureyri. Með háskólanáminu starfaði hún í söludeild Stórkaupa og nokkur ár þar á undan hjá N1/Bílanausti.
Liðsstjóri í mótorsporti og ökumaður
„Áhugamál mín eru mótorsport og ferðalög og þeysumst við hjónin út um allt land á sumrin að keppa í rallý. Maðurinn minn er ökumaður en ég er liðsstjóri. Ég passa að allir sem eru að aðstoða okkur séu örugglega á réttum stað þegar þjónustuhléin eru, tryggi að það sé til nóg af varahlutum og græja líka mat og drykki fyrir keppnis- og þjónustuliðið okkar. Ég afla líka styrkja frá fyrirtækjum til að fjármagna sportið, sem er ekki það ódýrasta,“ segir Inga en þar með er langt í frá allt upptalið sem liðsstjórinn hefur á sinni könnu.
„Ég sé líka um að skrá liðið í keppni á réttum tíma, læt keppnisstjórnir vita hvenær er leiðarskoðað og fleira, ásamt því að sjá um samfélagsmiðla liðsins, bæði facebook og instragram svo þetta er ansi fjölbreytt,“ segir Inga en þar með er ekki allt talið. „Við fjölskyldan fylgjumst svo með rallýkrossi og torfæru og fleira mótorsporti yfir sumartímann og Formúla 1 heldur líka áhuganum vakandi á sumrin og veturna.“
„Ég hef líka sjálf keppt í rally, rallýkrossi og kvartmílu en það er orðið langt síðan. Spurning að fara að dusta rykið af mótorsportskónum,“ bætir Inga við með bros á vör.
Fóru Íslandshringinn í sumar
Fjölskyldan fór í sumarfrí innalands í sumar, eins og svo margir aðrir Íslendingar og fóru þennan „týpíska hring í kringum Ísland og líka hring um Vestfirði,“ eins og Inga orðar það.
„Við ferðumst mikið á sumrin og eigum fellihýsi sem við notum þá gjarnan á ferðalögum okkar. Það er dásamlegt að njóta náttúrunnar sem við erum svo heppin að eiga hér á Íslandi á þennan hátt. Við erum líka lukkuleg að hafa aðgang að fallegum bústað í Borgarfirði sem tengdaforeldrar mínir eiga og reynum að kíkja þangað til að njóta sveitasælunnar.“