Vel heppnaður haustfundur um viðhaldsþörf fjölbýlishúsa og undirbúning verka
Um 90 gestir mættu á haustfund Eignaumsjónar í dag fyrir stjórnir hús- og rekstrarfélaga sem eru í þjónustu hjá fyrirtækinu um viðhaldsþörf fjölbýlishúsa og undirbúning viðhaldsverkefna. Um 50 manns mættu til okkar í hádeginu í dag og um 40 þátttakendur voru með okkur rafrænt á Teams.
Á fundinum var farið yfir áhugaverða þætti sem snúa að viðgerðum og viðhaldi, sem er án efa með stærstu og vandasömustu verkefnum sem húsfélög glíma við. Þar er oft í mörg horn að líta, viðfangsefnin flókin, tímafrek og kostnaðarsöm og mikilvægt að rétt og vel sé staðið að öllum undirbúningi, áætlanagerð, framkvæmdum, eftirliti og síðast en ekki síst, innheimtu og greiðslufyrirkomulagi viðhaldskostnaðar.
Viðhaldsþörf og ástand eftir aldri
Björn Marteinsson, verkfræðingur og arkitekt, kennari við HÍ og fyrrverandi starfsmaður HMS, Nýsköpunarmiðstöðvar og Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins var frummælandi á fundinum og ræddi um viðhaldsþörf í fjölbýlishúsum og ástand eftir aldri og var gerður góður rómur að erindi hans, sjá glærur hér.
Umfang viðhaldsframkvæmda félaga hjá Eignaumsjón
Í framhaldi af erindi Björns gerði Daníel Árnason, framkvæmdastjóri Eignaumsjónar, grein fyrir umfangi viðhaldsframkvæmda hjá félögum í þjónustu hjá fyrirtækinu. Hann kom víða við en ræddi m.a. um að skerpa mætti á lagabókstaf til að ýta undir fyrirbyggjandi viðhald og söfnun fjármuna í framkvæmdasjóð. Sjá glærur með erindi Daníels hér.
Ferli viðhaldsframkvæmda
Þriðji framsögumaður á fundinum var Gunnþór Steinar Jónsson, nýr forstöðumaður þjónustusviðs Eignaumsjónar, sem gerði grein fyrir því ferli sem Eignaumsjón vinnur eftir með húsfélögum þegar kemur að undirbúningi og ákvarðanatöku vegna viðhaldsframkvæmda. Kynningu Gunnþórs má skoða hér.
Að loknum framsöguerindum voru líflegar fyrirspurnir, bæði úr sal og rafheimum undir styrkri stjórn fundarstjórans, Páls Þórs Ármann frá Eignaumsjón – og stóð ekki á svörum frá frummælendum. Að loknum fundi var ekki annað að heyra en efni fundarins hefði mælst vel fyrir, sem er hvatning til að halda áfram á þessari braut.