Húsbókin – aðgengilegar upplýsingar auka gagnsæi og virði eigna
Húsbókin – mínar síður eigenda – er rafræn þjónustu- og upplýsingagátt fyrir fasteignaeigendur sem eru í þjónustu hjá Eignaumsjón. Þar geta bæði eigendur og stjórnir í húsfélögum og rekstrarfélögum atvinnuhúsa nálgast upplýsingar um málefni síns húsfélags á einfaldan hátt og fylgst rafrænt með greiðslustöðu og verkefnum, hvar og hvenær sem þeim hentar, í tölvu, spjaldtölvu eða snjallsíma.
Í húsbókinni hafa eigendur aðgang að nýjustu upplýsingum um sína eign í rauntíma, s.s. húsgjöld, greiðsluseðla og kröfusögu. Stjórnarmenn sjá líka daglega fjárhagsstöðu húsfélagsins, stöðu bankareikninga, útistandandi húsgjöld/framkvæmdagjöld og stöðu innheimtukrafna allra greiðenda.
Öll fundargögn aðgengileg í Húsbókinni
Í aðdraganda aðalfunda eru öll fundargögn aðgengileg í Húsbókinni og þar er enn fremur hægt að nálgast fundargerðir, ársreikninga, kostnaðaráætlanir, tryggingarskírteini og ýmis gögn sem snúa að viðhaldi og framkvæmdum viðkomandi húsfélags.
Þá er hægt að framkvæma nafnabreytingar, eigendaskipti og breytingar á heimilisfangi í Húsbókinni, óska eftir yfirlýsingu húsfélags vegna sölu á fasteignum, senda beiðnir vegna útlagðs kostnaðar og virkja afslætti sem standa viðskiptavinum Eignaumsjónar til boða.
Eftirlitsskýrslur húsumsjónar eru einnig aðgengilegar stjórnarmönnum í Húsbókinni ef við á, sem og önnur gögn sem snúa að stjórn húsfélagsins.
Örugg gagnageymsla
Leitast er við að hafa allt notendaviðmót Húsbókarinnar sem fljótvirkast og þægilegast. Til dæmis helst aðgangur virkur í 35 daga í viðkomandi tæki eða tölvu en notandi þarf ávallt að skrá sig inn á ný, þegar farið er inn í Húsbókina úr nýju tæki eða tölvu.
Til að tryggja sem best öryggi gagna er innskráning í Húsbókina aðgangsstýrð gegnum island.is með rafrænum skilríkjum í snjallsíma eða íslykli, þannig að einungis þeir sem eiga rétt á að skoða umrædd gögn hafi aðgang að þeim. Við fyrstu innskráningu þarf notandi að skrá sig inn með kennitölu greiðanda og/eða eiganda og samþykkja skilmála Húsbókarinnar með netfangi sínu.
Frekari endurbætur á döfinni
Með tilkomu Húsbókarinnar fyrir tæpum þremur árum var stigið stórt skref í enn betri þjónustu við eigendur fasteigna sem eru í viðskiptum við Eignaumsjón. Markmiðið er að efla hana enn frekar á næstunni, því það er trú okkar að greinargóðar og aðgengilegar upplýsingar auki virði eigna og viljum við að eigendur njóti þess í húsfélögum og atvinnuhúsum sem eru í þjónustu Eignaumsjónar.
Sjá nánar hér.