Jul 9, 2021 | Fréttir, Greinar
Húsbók Eignaumsjónar, sem leysti af hólmi mínar síður viðskiptavina félagsins í nóvember í fyrra, hefur almennt mælst mjög vel fyrir. Í húsbókinni geta eigendur og stjórnir húsfélaga á einfaldan hátt nálgast upplýsingar um málefni síns húsfélags og fylgst rafrænt með greiðslustöðu og fleiru hjá húsfélaginu þegar hentar.
Innskráning í Húsbókina er aðgangsstýrð í gegnum www.island.is með rafrænum skilríkjum í snjallsíma eða íslykli, til að tryggja að einungis þeir sem eiga rétt á að skoða umrædd gögn hafi aðgang að þeim. Allt kapp var lagt á að hafa notendaviðmót húsbókarinnar sem fljótvirkast og þægilegast og stöðugt er verið að huga að úrbótum til að mæta sem best þörfum viðskiptavina Eignaumsjónar.
Nýjungar í Húsbókinni
Notendur, sem ávallt eru skráðir inn í Húsbókina með kennitölu greiðanda og/eða eiganda, geta nú skráð allt að þrjú mismunandi netföng í húsbókinni. Þetta getur t.d. verið hentugt fyrir bæði fyrirtæki og fjölskyldur með eignir í fleiri en einu húsfélagi í þjónustu hjá Eignaumsjón. Notendur sem vilja nýta sér þessa nýjung í Húsbókinni ganga frá netfangabreytingum með því að smella á „Notendastillingar“, uppi hægra megin í Húsbókinni.
Önnur nýjung í Húsbókinni tengist boðun funda. Í aðdraganda hús- og aðalfunda eru t.d. öll fundargögn aðgengileg í húsbókinni, til upplýsingar og skoðunar fyrir eigendur. Undir flipanum „Næsti fundur“ birtast nú bæði fundarboð hús- og aðalfunda, sem og öll gögn sem búið er að skrá í Húsbók viðkomandi húsfélags fyrir fundinn.
Helstu gögn viðkomandi húsfélags á einum stað
Í Húsbókinni er leitast við að safna saman og gera aðgengileg öll helstu gögn viðkomandi húsfélags og því má segja að þar verði jafnóðum til drög að ástandssögu húseignarinnar í gegnum framkvæmdir sem ráðist er í á vegum húsfélagsins og fundargerðir sem þar liggja að baki o.fl. Húsbókin er því upplýsingaveita um ástand eignar, t.d. við kaup eða sölu, jafnframt því að vera upplýsingagátt til eigenda og stjórna húsfélaga í þjónustu hjá Eignaumsjón.
Eigendur/íbúar hafa alltaf aðgang að nýjustu upplýsingum um húsgjöldin sín, s.s. greiðsluseðla og kröfusögu. Í Húsbókinni er enn fremur hægt að nálgast fundargerðir, ársreikninga, kostnaðaráætlanir, tryggingarskírteini og ýmis gögn sem snúa að viðhaldi og framkvæmdum viðkomandi húsfélags.
Gagnsemi Húsbókarinnar er ekki síðri fyrir stjórnir húsfélaga. Þar er m.a. hægt á hverjum tíma að sjá daglega fjárhagsstöðu húsfélagsins, stöðu bankareikninga, útistandandi húsgjöld/framkvæmdagjöld og stöðu innheimtukrafna allra greiðenda. Í Húsbókinni eru einnig eftirlitsskýrslur húsumsjónar aðgengilegar, ef við á, sem og önnur gögn sem snúa að stjórn húsfélagsins.
Nov 9, 2020 | Fréttir, Greinar
Húsbók Eignaumsjónar, sem mætti kalla afmælisgjöf félagsins til viðskiptavina sinna, var nýlega tekin í notkun. Innskráningin er aðgangsstýrð í gegnum www.island.is með rafrænum skilríkjum í snjallsíma eða íslykli, til að tryggja að einungis þeir sem eiga rétt á að skoða umrædd gögn hafi aðgang að þeim.
Húsbókin leysir af hólmi MÍNAR SÍÐUR viðskipavina Eignaumsjónar og þar geta eigendur og stjórnir húsfélaga á einfaldan hátt nálgast upplýsingar um málefni síns húsfélags og fylgst rafrænt með greiðslustöðu og verkefnum hvar og hvenær sem þeim hentar, í tölvu, spjaldtölvu eða snjallsíma.
Ástands- og viðhaldssaga viðkomandi eignar
Í Húsbókinni er leitast við að safna saman og gera aðgengileg öll helstu gögn viðkomandi húsfélags og því má segja að þar verði jafnóðum til drög að ástandssögu húseignarinnar í gegnum framkvæmdir sem ráðist er í á vegum húsfélagsins og fundargerðir sem þar liggja að baki o.fl. Þannig verður Húsbókin upplýsingabrunnur um ástand viðkomandi eigna, t.d. við kaup eða sölu, jafnframt því sem hún er upplýsingagátt til eigenda og stjórna húsfélaga í þjónustu hjá Eignaumsjón. Í aðdraganda hús- og aðalfunda eru t.d. öll fundargögn aðgengileg í Húsbókinni, til upplýsingar og skoðunar og eigendur/íbúar hafa alltaf aðgang að nýjustu upplýsingum um húsgjöldin sín, s.s. greiðsluseðla og kröfusögu. Í Húsbókinni er enn fremur ávallt hægt að nálgast fundargerðir, ársreikninga, kostnaðaráætlanir, tryggingarskírteini og ýmis gögn sem snúa að viðhaldi og framkvæmdum viðkomandi húsfélags. Gagnsemi húsbókarinnar er ekki síðri fyrir stjórnir húsfélaga. Þar geta stjórnarmenn á hverjum tíma séð m.a. daglega fjárhagsstöðu húsfélagsins, stöðu bankareikninga, útistandandi húsgjöld/framkvæmdagjöld og stöðu innheimtukrafna allra greiðenda. Í Húsbókinni eru einnig eftirlitsskýrslur húsumsjónar aðgengilegar, ef við á, sem og önnur gögn sem snúa að stjórn húsfélagsins.
Upplýsingar í rauntíma með einum smelli
Allt notendaviðmót Húsbókarinnar er nýtt af nálinni og leitast við að hafa leiðakerfið sem fljótvirkast og þægilegast fyrir notendur. Þannig má segja að notendur geti nú með einum smelli skoðað rauntímaupplýsingar um sína eign með öruggri innskráningu í gengum www.island.is. Í Húsbókinni er notandi skráður með kennitölu greiðanda og/eða eiganda. Með aðgangsstýrðri innskráningu með rafrænum skilríkjum í snjallsíma, eða íslykli, er jafnframt tryggt að einungis þeir sem eiga rétt á að skoða umrædd gögn hafi aðgang að þeim. Viðskiptavinir, sem til þessa hafa notað veflykil til að skrá sig eða sitt fyrirtæki inn á MÍNAR SÍÐUR Eignaumsjónar, þurfa að útvega sér íslykil, ef þeir eiga hann ekki fyrir. Íslykill er gefinn út af Þjóðskrá Íslands og eru nánari upplýsingar um hvernig sótt er um hann að finna á www.island.is.
Aðgengilegar upplýsingar auka gagnsæi og virði eigna
Eignaumsjón lítur á Húsbókina sem mikilvægt skref í að bæta enn frekar þjónustu við eigendur fasteigna sem eru í viðskiptum við félagið. Í Húsbókinni geta eigendur fasteigna strax nálgast bæði ítarlegar og gagnlegar upplýsingar tengdar rekstri húsfélagsins og viðhaldssögu viðkomandi húss og markmiðið er að leitast við að efla hana enn frekar í framtíðinni. Það er okkar sannfæring að aðgengilegar upplýsingar auki virði eigna og þess njóti þær eignir sem tengjast hús- og rekstrarfélögum í þjónustu Eignaumsjónar.