Um 130 manns mættu á hádegisfund Eignaumsjónar í dag um sorpmál og um 70 fylgdust með fundinum á Teams. Til umræðu voru fyrirhugaðar breytingar á sorphirðu á höfuðborgarsvæðinu, í kjölfar breytinga á lögum um meðhöndlun úrgangs, sem taka gildi um áramótin. Til fundarins var boðið formönnum og stjórnum húsfélaga sem eru í þjónustu hjá Eignaumsjón. Framsögumenn komu frá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, SORPU og Reykjavíkurborg.
Lögin kveða á um að skylt verði að safna við heimili lífrænum eldhúsúrgangi, plasti, pappír/pappa ásamt almennu sorpi og því eru breytingar á sorphirðu á höfuðborgarsvæðinu óhjákvæmilegar, sagði Jón Kjartan Ágústsson, svæðisskipulagsstjóri hjá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, SSH, sem kynnti ásamt Gunnari Dofra Ólafssyni, samskipta- og þróunarstjóra SORPU, helstu breytingar sem fylgja gildistöku laganna þann 1. janúar 2023.
Öll sorpflokkun samræmd á höfuðborgarsvæðinu
Samhliða gildistökunni er öll flokkun úrgangs á höfuðborgarsvæðinu samræmd, sem ætti að mælast vel fyrir því töluvert hefur verið um kvartanir frá almenningi um að erfitt sé að átta sig á hvaða reglur gilda í hverju sveitarfélagi. Við samhæfinguna hefur m.a. verið haft að leiðarljósi að lágmarka stofn- og rekstrarkostnað íbúa og sveitarfélaga, hámarka endurvinnslu og umhverfislegan ávinning, tryggja að ákvæði laga séu uppfyllt og einfaldleika og gæði við framkvæmd breytinganna.
Eftir samhæfinguna verða öll fjölbýlishús á höfuðborgarsvæðinu almennt með fjórar tegundir af sorpílátum eða tunnum; fyrir lífrænan heimilisúrgang, fyrir pappír og pappa, fyrir plast og fyrir almennt sorp, eða það sem frummælendur kölluðu „sóðatunnuna“.
Búið að kaupa tvær milljónir bréfpoka
„Stóra breytingin snýr að lífrænum úrgangi sem verður safnað í pappírspoka á hverju heimili sem fara svo í lífrænu tunnuna,“ sagði Jón Kjartan. Hann áréttaði að pappírspokarnir væru besta lausnin að mati allra sem unnið hafa að undirbúningi breytinganna. Pokarnir henti vinnslunni vel, brotni auðveldlega niður og festist ekki í vélbúnaði móttökustöðva. Með þessu móti verði lífræni úrgangurinn líka strax tilbúinn til frekari úrvinnslu, hvort sem um er að ræða gas- eða moltuframleiðslu.
Gunnar Dofri upplýsti jafnframt að til að byrja með yrðu bréfpokarnir ókeypis fyrir íbúa allra sveitarfélaganna sex sem standa að Sorpu og jafnframt muni öll heimili fá afhentar þar til gerðar grænar plastkörfur sem pokarnir passa í, til að hafa í eldhúsinu. Samtals munu það vera um 92 þúsund körfur fyrir höfuðborgarsvæðið og fram kom líka að þegar væri búið að leggja inn pöntun á tveimur milljónum bréfpoka.
Breytingar eru líka fyrirhugaðar varðandi grenndarstöðvar. Samhæfa á allar grenndarstöðvar á höfuðborgarsvæðinu. Á minni stöðvum verður safnað saman textíli, málmum, gleri og drykkjarílátum en á stærri grenndarstöðvum verður líka hægt að losna við pappír/pappa og plast. Fram kom að sveitarfélögin muni útfæra grenndarstöðvarnar nánar með íbúum. Stefnt væri að því að hámarksfjarlægð frá heimili að minni grenndarstöð yrði ekki meira en 500 metrar og að hámarki um 1.000 metrar frá heimil að stærri grenndarstöð.
Svo til sjálfkrafa breyting
Á fundinum kom fram að langflest heimili þurfa ekki að bregðast við áformuðum breytingum utandyra, s.s. að stækka sorpgerði, stækka sorpgeymslur eða kaupa ný ílát, heldur er gert ráð fyrir að breytingin eigi sér stað svo til sjálfkrafa. Hún felst annað hvort í því að nýjar merkingar verða settar á ílát sem eru þegar til staðar, eða þá að nýjum ílátum er bætt við til að uppfylla kröfur um fjögurra flokka flokkunn. Öll heimili þurfa þó að koma sér upp söfnunarílátum innan heimilis, ef þau ekki þegar til staðar, fyrir eftirtalda flokka:
- Gráa tunnu/”sóðatunnu” – safnað við heimili
- Lífræna tunnu – safnað við heimili
- Pappír – safnað við heimili
- Plast – safnað við heimili
- Gler – fer í grenndargám
- Dósir – fer í grenndargám
- Textíl – fer í grenndargám
- Málmar – fer í grenndargám
Tímalína innleiðingar
Fram kom einnig hjá þeim Jóni Kjartani og Gunnari Dofra að útboð standi nú yfir vegna nýrra sorpíláta og á því að vera lokið fyrir áramót, þegar lögin taka gildi. Frá janúar til maí á næsta ári er gert ráð fyrir að undirbúningi við heimili og grenndarstöðvar, samtímis því sem kynningarherferð hefst. Þá verður líka byrjað að dreifa og afhenda ný ílát og á því verki að ljúka í september 2023. Áréttað var að húsfélög eigi ekki að þurfa að vera með sérstakan undirbúning, tunnurnar komi til allra „einn góðan veðurdag“ ásamt grænu körfunni fyrir lífræna úrganginn – og þá taki nýja sorphirðukerfið gildi hjá viðkomandi. Samhliða verði brugðist við vandamálum sem komi upp og jafnframt sé þá ráðgert að hefja vinnu við söfnun á frekari úrgangsflokkum, s.s. eiturefnum, lituðu gleri, raftækjum o.fl.
Reykjavík byrjar í maí 2023
„Við byrjum í maí 2023 og ljúkum innleiðingu í október, sagði Guðmundur B. Friðriksson, skrifstofustjóri skrifstofu umhverfisgæða hjá Reykjavíkurborg, sem kynnti innleiðingu breyttrar hirðu í Reykjavík á fundinum. Hann sagði gott að fá að hitta formenn og stjórnarfólk í húsfélögum hjá Eignaumsjón og fá að kynna stöðu þessara mála.
Farið verður í hverfi fyrir hverfi í öllum níu borgarhlutum Reykjavíkur samkvæmt ákveðinni forskrift. Útboð er í gangi vegna tunnuskipta og þeim munu fylgja grænar körfur undir lífrænu bréfpokana. Strax og tunnuskiptum er lokið tekur nýja kerfið gildi með vikulegri losun. Aðra vikuna er sótt almennt sorp og lífrænn úrgangur og hina vikuna pappír/pappi og plast.
Djúpgámar og takmarkað pláss í sorpgeymslum
Guðmundur nefndi einnig djúpgáma, sem mörg húsfélög hafa komið sér upp og sagði að það yrði lítið mál í Reykjavík að aðlaga þá nýju flokkunarkerfi, því borgin hefði frá upphafi gert körfu um fimm flokkunarlínur og því þyrfti bara að breyta miðum á djúpgámum til samræmis við nýjar kröfur. Breytingarnar gætu orðið aðeins flóknari í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, þar sem í dag væru kröfur um færri flokkunarlínur. Þessi mál væru til skoðunar og mögulega yrði hægt að tvískipta umræddum djúpgámum.
Einnig var vikið að takmörkuðu rými í sorpgeymslum. Kom m.a. fram hjá Guðmundi að þar gæti aukin flokkun og skil á grenndarstöðvar dregið úr þörf fyrir almennar sorptunnur, jafnframt því sem bjóða eigi upp á mismunandi stærðir á gráum tunnum. Þar á meðal verður nýtt ílát sem er 370 lítrar, stærra en venjuleg grá tunna en minna um sig en stóru sorpkerin.
Áréttaði Guðmundur að hugmyndin á bakvið hönnun nýja flokkunarkerfisins væri að húsfélög og íbúar þurfi að gera sem minnst. Þar sem ekki verði komist hjá því að breyta sorpgeymslum eða koma upp nýrri aðstöðu þurfi byggingarleyfi – en á móti geti þá gamla geymslan nýst í öðrum tilgangi. Minnt var á að þá yrði líka að huga vel að aðgangsmálum og hvatti Guðmundur húsfélög til að láta reyna á nýja kerfið áður en þau færu að huga að breytingum. Þeir sem teldu eftir sem áður þörf á slíku gætu þá sett sig í samband við borgina á netfanginu sorphirda@reykjavik.is
Hvað á að gera við sorprennuna?
„Hvert húsfélag ræður því hvað verður gert við sorprennuna,“ sagði Guðmundur og bætti við að það væri valkvætt hvort henni yrði lokað eða hún notuð áfram. Þá færi væntanlega best á því að vera með gráa tunnu fyrir almennt sorp undir rennunni frekar en lífrænu tunnuna. Kom jafnframt fram hjá Guðmundi að gjaldskrá vegna sorphirðu verði notuð sem hvati til að auka sorpflokkun. Gjöldin muni lækka hjá þeim sem eru duglegir að flokka en gjöld vegna óflokkaðs sorps, eða „sóðatunnunnar“, muni hækka.
Í umræðum að loknum framsöguerindum sagði Guðmundur, aðspurður hve mikil þessi hækkun gæti orðið, ekki geta sagt til um það á þessari stundu en ljóst væri að fjölgun flokkunarflokka og tíðari sorphirða, á tveggja vikna fresti í stað þriggja vikna, muni kosta meira. Bætti hann við að lögum samkvæmt bæri að rukka allan kostnað við sorphirðu. Áréttaði hann jafnframt að sú gjaldtaka mætti hvorki vera undir eða yfir raunkostnaði en hins vegar mætti færa kostnað á milli flokkunarflokka.
Sýna samfélagslega ábyrgð
Af hálfu Eignaumsjónar flutti Halla Mjöll Stefánsdóttir, ráðgjafi á þjónustusviði, stuttan inngang í fundarbyrjun um sífelldar umræður um sorpmál á hús- og aðalfundum hjá félögum í þjónustu hjá Eignaumsjón. Hún sagði ljóst af þeim umræðum að mikil eftirspurn væri eftir því að koma sorpmálum í betra horf hjá húsfélögum en til að svo mætti verða væri nauðsynlegt að taka til hendinni og sýna samfélagslega ábyrgð.
Fundarstjóri á hádegisfundinum var Páll Þór Ármann, forstöðumaður þjónustusviðs Eignaumsjónar, en lokaorð á fundinum átti framkvæmdastjórinn, Daníel Árnason. Þakkaði hann gestum fyrir góða mætingu, sem sýndi tvímælalaust að umræðan væri tímabær, enda hefði töluvert verið um fyrirspurnir til Eignaumsjónar um hvernig framkvæmd þessara breytinga yrði. Nú vissu menn, skref fyrir skref, hvernig innleiðingu nýs flokkunarkerfis yrði háttað á næsta ári. Þakkaði hann frummælendum fyrir þeirra erindi og þátttöku í umræðum og hvatti að lokum til þess að allir héldu áfram að vinna að þessum málum saman – enda sorpið verðmæti.
Hlekkur á ppt kynningu Jón Kjartans og Gunnars Dofra
Hlekkur á ppt kynningu Guðmundar
Upptaka af Teams fundi