Eignaumsjón komin með jafnlaunastaðfestingu Jafnréttisstofu
Eignaumsjón hefur öðlast jafnlaunastaðfestingu Jafnréttisstofu, sem er staðfesting á því að launakerfi fyrirtækisins og framkvæmd þess felur ekki í sér kynbundna mismunun. Sótt var um staðfestinguna í desember 2022 og í lok febrúar 2023 barst tilkynning frá Jafnréttisstofu um að öll umsóknargögn uppfylli kröfur sem gerðar eru í lögum nr. 151/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.
Samkvæmt lögunum geta fyrirtæki og stofnanir með 25 til 49 starfsmenn valið á milli jafnlaunastaðfestingar eða jafnlaunavottunar og er Eignaumsjón í hópi fyrstu fyrirtækja landsins af þessari stærðargráðu sem hafa öðlast jafnlaunastaðfestingu, sjá lista yfir fyrirtæki og stofnanir hér: https://www.jafnretti.is/is/vinnumarkadur/jafnlaunastadfesting/listi-yfir-adila-sem-hlotid-hafa-stadfestingu.
Vinnur gegn kynbundum launamun og stuðlar að jafnrétti kynja á vinnumarkaði
Meginmarkmið jafnlaunastaðfestingar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Til að öðlast þessa staðfestingu þarf að skila eftirfarandi gögnum til Jafnréttisstofu:
- Jafnlaunastefna – stefna fyrirtækis eða stofnunar í jafnlaunamálum.
- Jafnréttisáætlun eða samþætt jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu (þarf að vera samþykkt af Jafnréttisstofu).
- Starfsflokkun.
- Launagreining.
- Áætlun til úrbóta þar sem við á.
- Samantekt æðsta stjórnanda.
Jafnréttisstofa metur umsóknargögn og veitir jafnlaunastaðfestingu þegar innsend gögn uppfylla skilyrði laganna. Sækja þarf um endurnýjun jafnlaunastaðfestingar á þriggja ára fresti.
Sjá nánar hér: https://www.jafnretti.is/is/vinnumarkadur/jafnlaunastadfesting/jafnlaunastadfesting.
Allt starfsfólk metið að verðleikum og áherslu á að allir njóti jafnra tækifæra
Ávallt hefur verið lögð áhersla á jafnrétti kynja hjá Eignaumsjón og að allt starfsfólk njóti jafnra tækifæra á vinnustaðnum.
Meginmarkmið jafnréttisáætlunar félagsins, sem samþykkt hefur verið af Jafnréttisstofu, er að allt starfsfólk skuli metið að verðleikum, njóti sömu virðingar og hafi jöfn tækifæri óháð kyni til að þróast í starfi með því að takast á við krefjandi verkefni sem efla það og styrkja. Þá felur jafnlaunastefna félagsins það m.a. í sér að allt starfsfólk fái sömu laun og sömu kjör fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.