Enn frekari áhersla á stafræna vegferð hjá Eignaumsjón
Breytingar hafa verið gerðar á skipuriti Eignaumsjónar og er Tæknisvið fyrirtækisins nú eitt af meginsviðum starfseminnar, ásamt fjármálasviði og þjónustusviði. Samhliða þessum breytingum hefur forstöðumaður tæknisviðs tekið sæti í framkvæmdastjórn fyrirtækisins.
„Fram undan eru spennandi tímar í stafrænni vegferð Eignaumsjónar, bæði í tækniþróun og snjallvæðingu en fyrirtækið hefur unnið markvisst að því í allmörg ár að færa starfsemina yfir í stafrænt umhverfi,“ segir Sigurður Gauti Hauksson, forstöðumaður tæknisviðsins.
Umtalsverð efling tæknisviðs
Fjórir tölvunarfræðingar starfa nú hjá tæknisviði Eignaumsjónar og hefur verið auglýst eftir þremur sérfræðingum til viðbótar, til að mæta fyrirliggjandi áskorunum í hugbúnaðarmálum.
„Þörfin er sannarlega brýn að efla rafræna getu fyrirtækisins, sem er nú með um 1.200 hús- og rekstrarfélög í þjónustu með um 25 þúsund fasteignir/einingar.“
Laus störf í forritun, þróun og notendaþjónustu
Auglýst hefur verið eftir tveimur öflugum forriturum til að þróa Microsoft SQL gagnagrunna og Microsoft .Net C# hugbúnað. Jafnframt er leitað að öflugum starfskrafti til að annast notendaþjónustu við eigin hugbúnað fyrirtækisins og útstöðvar, ásamt því að sinna kennslu og fleiri verkefnum. Nánari upplýsingar um störfin er að finna á alfred.is og eiga allar umsóknir að fara þar í gegn. Umsóknarfrestur er til 15. desember 2024. Auglýsinguna má skoða hér.