Vel sóttur fundur um aðgangsstýringar og öryggismál í húsfélögum
Á annað hundrað gestir mættu á hádegisfund Eignaumsjónar í dag um aðgangsstýringar og öryggismál í fjölbýlishúsum. Alls voru 84 mættir á fundinn og 41 þátttakandi var með okkur rafrænt á Teams. Fundurinn var sá fimmti í fundaröð Eignaumsjónar fyrir stjórnir hús- og rekstrarfélaga sem eru í þjónustu hjá fyrirtækinu.
Á fundinum var farið yfir áhugaverða þætti sem snúa að uppsetningu og rekstri öryggiskerfa og aðgangsstýringa í fjölbýlishúsum og bílageymslum en vaxandi fjöldi húsfélaga hefur sett aðgangs- og öryggismál á dagskrá á undanförnum misserum og jafnvel fjárfest í dýrum búnaði.
Hagsmunir húsfélaga
Daníel Árnason, framkvæmdastjóri Eignaumsjónar reið á vaðið og fór m.a. yfir tölfræði frá lögreglunni sem sýnir m.a. að innbrot í hverjum mánuði eru að jafnaði frá 20-60 talsins og eðlilega fyllist þau sem fyrir þessi verða ónotatilfinningu og óöryggi. Hann áréttaði að í lögum um fjöleignarhús er ekki minnst á öryggi eða aðgangsmál í fjölbýlishúsum en hlutverk og tilgangur húsfélags er m.a. að varðveisla sameignar. Með breyttri samfélagsgerð, vaxandi fjölda íbúða í fjölbýli og ólíkri flóru eigenda er komin aukin áhersla á aðgangs- og öryggismál og nauðsynlegt að gera ráðstafanir. Erindið má nálgast hér.
Öryggis- og persónuverndarsjónarmið
Það er að ýmsu að hyggja varðandi persónuverndarsjónarmið og Emil Hilmarsson, öryggis- og upplýsingatæknistjóri Eignaumsjónar stiklað á stóru um þau mál í sínu erindi. Þar skipta máli ákvæði bæði persónuverndar- og fjöleignarhúsalaga. Að mörgu er að hyggja varðandi rafræna vöktun, s.s. að gæta meðalhófs, tilgangur sé skýr ásamt því að huga að fræðslu, vinnslu og miðlun efnis, afhendingu þess og varðveislu. Erindi Emils má nálgast hér.
Hvað lausnir eru í boði?
Gunnþór S. Jónsson, forstöðumaður þjónustusviðs Eignaumsjónar, sagði frá því að mikið hefði verið leitað til Eignaumsjónar um aðstoð við rekstur og umsjón aðgangsstýringa- og öryggiskerfa og ljóst að til staðar væri þroskaður markaður í sölu búnaðar en ekki í rekstri og umsýslu. Almennt hafi hússtjórnir verið að leita tilboða, oft án nægjanlegrar greiningar og þá geti verið hætta á því að velja lausn sem svarar ekki þörfum hússins. Búnaðarsalinn sjái svo um framkvæmdir og allur gangur geti þá verið á eftirliti, kostnaðargát, prófunum og skilamati. Það komi svo í hlut hússtjórna að annast rekstur og umsýslu og ef eitthvað komi upp á þurfi útkall fyrir hvert viðvik. Nefndi Gunnþór að lítil eftirfylgni væri með framkvæmd og allur gangur í aðgangsskráningum, uppsetningu hópa, sem og rekstri og umsjón. Til að koma til móts við þarfir viðskiptavina hafi Eignaumsjón því ákveðið að stíga inn á þennan vettvang og býður nú þjónustu sem kallast Eignavöktun. Þar er innifalin úttekt og verkönnun, eftirlit með uppsetningu og rekstur og umsjón. Erindi Gunnþórs má nálgast hér.
Að loknum framsöguerindum voru fyrirspurnir, bæði úr sal og á Teams. Ekki var annað að heyra hjá gestum að loknum fundi en að efni fundarins og umfjöllunin hefði mælst vel fyrir.