Kostnaður vegna hleðslu rafbíla fer beint á húsgjaldareikning notenda
Hátt í 70 húsfélög hafa nú leitað til Eignaumsjónar um hlutlausa og faglega úttekt á hleðsluaðstöðu fyrir rafbíla og gerð kostnaðar- og framkvæmdaáætlunar við uppsetningu og rekstur slíkrar aðstöðu. Á þriðja tug þeirra hafa þegar ákveðið að fela Eignaumsjón að annast sjálfvirka innheimtu vegna notkunar hleðslustöðvanna á húsgjaldareikning viðkomandi notenda.
Meðal fyrstu húsfélaganna til að nýta sér þjónustu Eignaumsjónar um úttekt á hleðsluaðstöðu rafbíla var Laufvangur 2-10 í Hafnarfirði. Fyrstu hleðslustöðvarnar þar eru komnar í gagnið og nýbúið að gefa út hleðslukort, þannig að sjálfvirk innheimta getur hafist hjá rafbílaeigendum í húsfélaginu sem nota stöðvarnar.
Ekkert álag á raforkunotkun bíleigenda
„Við fengum fyrir um ári síðan beiðni um að svona stöðvum yrði komið upp. Þá leituðum við til Eignaumsjónar og fengum úttekt á hleðsluaðstöðu fyrir okkur,“ segir Jón Ragnars, formaður húsfélagsins. Hann segir að í kjölfarið hafi Eignaumsjón óskað eftir tilboðum, húsfundur verið haldinn um málið og hagstæðasta tilboðinu tekið, frá Hleðsluvaktinni, sem sá um að koma stöðvunum upp og þjónustar þær.
Stöðvarnar voru komnar upp seint í haust og var Eignaumsjón fengin til að sjá um rekstur þeirra. Stöðvarnar hafa nú verið tengdar við kerfi Eignumsjónar,sem fær sendar upplýsingar rafrænt um notkun hvers og eins rafbílaeiganda í húsfélaginu og útbýr reikninga mánaðarlega. Kostnaðurinn færist síðan beint á húsgjaldareikning viðkomandi notanda, þar sem húsfélagið er í þjónustu hjá Eignaumsjón, og án álags á raforkunotkun bíleigenda, öfugt við það sem algengt er hjá innheimtuaðilum sem eru með „opin kerfi“.
Njóta líka afsláttarkjara á rafmagni
„Við njótum þess líka að fá afslátt á þeim kjörum sem Eignaumsjón hefur á kaupum á rafmagni og er þetta þá mjög þægilegt í alla staði,“ segir Jón og bætir við að reksturinn sé nú kominn á gott skrið. Jafnframt liggi fyrir áætlun samkvæmt úttektinni um framtíðarþörf á hleðslustöðvum fyrir húsfélagið, sem fylgt verði eftir á komandi árum.