Jun 24, 2021 | Fréttir
Breytingar á fjöleignarhúsalögunum sem heimila eigendum fjöleignarhúsa að halda rafræna húsfundi og nota rafræn skjöl og tölvupósta í samskiptum milli stjórnar og félagsmanna voru samþykktar sem lög frá Alþingi þann 10. júní sl., á lokametrum þinghaldsins og hafa lagabreytingarnar þegar öðlast gildi.
Með breytingunum er verið að laga tiltekin ákvæði laganna að tækniframförum í rafrænum samskiptum og stöðunnar sem upp kom vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar, m.a. á eigendur fjöleignarhúsa vegna hús og aðalfunda og samskipta milli félagsmanna innan húsfélaga.
Lögum samkvæmt skal aðalfundum húsfélaga vera lokið fyrir apríllok ár hvert en grípa þurfti til þess í tvígang að fresta aðalfundum um ákveðinn tíma. Var þá bent á að ef heimilt væri samkvæmt lögum um fjöleignarhús að halda rafræna húsfundi og halda uppi rafrænum samskiptum, væri hægt að leysa þessi vandamál.
Skapar meira svigrúm og val
Markmið lagabreytingarinnar er að veita eigendum fjöleignarhúsa meira svigrúm og val um hvort húsfundir verði alfarið haldnir rafrænt eða að hluta til og hvort samskipti milli félagsmanna og stjórnar verði rafræn. Að sama skapi er líka leitast við að gera slíkt fyrirkomulag löglegt með því að kveða á um það í lögunum að slíkt form húsfunda sé jafngilt því að mæta í eigin persónu. Sjá nár hér.
Eignaumsjón fagnar þessari lagabreytingu sem mun auðvelda til muna að halda bæði hús- og aðalfundi húsfélaga á tilskildum tíma, s.s. við aðstæður eins og þær sem ríkt hafa í COVID-19 faraldrinum. Hafa þegar verið gerðar ráðstafanir til að bjóða upp á þessa tegund fundaþjónustu og fundasalir félagsins á Suðurlandsbraut 30 útbúnir með fjarfundabúnaði.
Feb 8, 2021 | Fréttir
Fundir í húsfélögum mega samkvæmt núgildandi lögum ekki vera haldnir rafrænt en það breytist ef frumvarpsdrög sem nú liggja fyrir í félagsmálaráðuneytinu verða að lögum. Þau rýmka kröfur sem lögin gera til löglega boðaðra húsfunda og opna þannig á alfarið rafræna eða blandaða húsfundi.
Þessum tillögum fagnar forstjóri Eignaumsjónar hf., Daníel Árnason. Honum er málið skylt, því fyrirtæki hans annast rekstur um 600 húsfélaga vítt og breitt um landið. Að baki þeim félögum eru um 15.000 eignir og Eignaumsjón er með um 70% hlutdeild á húsfélagsrekstrarmarkaðnum. Hlutverk Eignaumsjónar er í raun að annast rekstur húsfélags frá A til Ö. „Í rekstrinum felast fundarhöld, sem í sumum tilvikum eru bara eins og litlar ráðstefnur. Það þarf að boða til þeirra með lögmætum og skilvísum hætti, sem gengur heilt yfir mjög vel,“ segir Daníel. Í nýjum lögum er gert ráð fyrir að fundirnir geti verið blandaðir, sem hann telur farsælt. „Þá verður okkar hlutverk að skipuleggja fundina, þannig að þeir sem kjósi að vera á vettvangi geti það, sem er til dæmis algengt hjá eldri kynslóðinni, og einnig þannig að þeir sem ekki geti verið viðstaddir af ýmsum ástæðum geti verið viðstaddir fundina rafrænt.“
Daníel segir að þessar breytingar hafi verið tímabærar og að þörfin á þeim hafi orðið enn skýrari í heimsfaraldrinum. Auk þessara breytinga stendur ýmislegt annað til bóta í nýju frumvarpi, eins og til dæmis sú heimild húsfélaga að skipta húsum upp í viðhaldseiningar, þannig að verslun öðrum megin í húsi geti ráðist í framkvæmdir á sínum hluta hússins en til dæmis vöruskemman hinum megin sé ekki skylduð til þátttöku í þeim.
Viðtalið birtist í Morgunblaðinu 6. febrúar 2021.
Feb 3, 2021 | Fréttir
Félagsmálaráðuneytið kynnir nú til umsagnar drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjöleignarhús, nr. 26/1994, á samráðsgátt stjórnvalda. Frumvarpið felur í sér nokkrar breytingar á fjöleignarhúsalögum sem rétt þykir að gera af fenginni reynslu undanfarinna ára og er m.a. stefnt að því að færa í lögin beina heimild til að halda rafræna húsfundi, m.a. annars vegna breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu og óvissu sem ríkir vegna kórónaveirufaraldursins.
Veirufaraldurinn og samkomutakmarkanir vegna hans hafa haft bein áhrif á eigendur fjöleignarhúsa, m.a. vegna húsfunda og samskipta milli félagsmanna innan húsfélaga.
Á að heimila rafræna húsfundi og notkun rafrænna skjala
Með frumvarpinu er því lagt til að laga tiltekin ákvæði laganna að tækniframförum í rafrænum samskiptum og færa í lögin beina heimild til að halda rafræna húsfundi og nota rafræn skjöl og tölvupóst í samskiptum milli húsfélags og félagsmanna.
Þá er, í ljósi breyttra skipulagsáherslna og þar með ört vaxandi mannvirkjagerðar þar sem byggt er blandað húsnæði, nauðsynlegt að skapa eigendum húsnæðis í blönduðum húsum aukið svigrúm til þess að víkja frá ákvæðum laganna með það að markmiði að bæta nýtingu og einfalda ákvarðanatöku vegna aðlögunar húsnæðisins að þörfum eigenda blandaðs húsnæðis. Því er lagt til í frumvarpinu að eigendum húsnæðis í blönduðum húsum verði heimilað að víkja frá ákvæðum laganna með setningu sérstakra húsfélagssamþykkta fyrir blönduð hús.
Jafnframt er lögð til breyting á ákvæði laganna um húsfélagsdeildir þannig að heimild eigenda fjöleignarhúsa til að mynda húsfélagsdeild sé rýmkuð og nái til fleiri tilvika, s.s. að eigendum verði heimilt að semja um skiptingu á viðhaldi þannig að hver húsfélagsdeild annist framkvæmdir utanhúss á viðkomandi húshluta auk þess sem eigendum bílageymsla verði heimilt að stofna sérstaka húsfélagsdeild um bílageymsluna með samningi, svo unnt verði að reka þær sem sjálfstæðar einingar og að meginstefnu óháð ákvörðunarvaldi annarra eigenda fjöleignarhúss.
Umsagnafrestur til 15. febrúar
Umsagnarfrestur um frumvarpsdrögin er til 15. febrúar næstkomandi. Umsagnirnar verða birtar jafnóðum og þær berast í samráðsgáttinni en niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem berast.
Sjá nánar hér.