Íbúðaumsjón Eignaumsjónar – ný sérþjónusta í umsjón fasteigna
Íbúðaumsjón er ný þjónustuleið sem er nú í boði hjá Eignaumsjón fyrir þá sem eiga íbúðir á höfuðborgarsvæðinu en eru með búsetu annars staðar á landinu eða erlendis. Þjónustan er sérsniðin að þörfum hvers og eins íbúðareiganda og nær til bæði reglubundins eftirlits og reksturs viðkomandi eignar.
„Við höfum fundið fyrir eftirspurn eftir þjónustu af þessu tagi um nokkurt skeið,“ segir Daníel Árnason, framkvæmdastjóri Eignaumsjónar. „Það verður æ algengara að fólk sem býr erlendis eigi íbúð hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem það dvelur tímabundið en svo er það í vandræðum með eftirlit og rekstur þessara eigna utan þess tíma. Sama á líka í mörgum tilfellum við um fólk sem býr úti á landi en á sér líka athvarf í borginni. Þetta er markhópurinn okkar og við höfum nú þegar samið við eigendur nokkurra íbúða í Reykjavík um íbúðaumsjón“.
Umsjón með rekstri og reglubundið eftirlit
Til að geta nýtt íbúðaumsjónina þurfa viðskiptavinir að hafa íslenska kennitölu, vera í heimabankaþjónustu hjá íslenskri bankastofnun og veita Eignaumsjón umboð til að sjá um fjármál umræddra fasteigna.
Eignaumsjón tekur þá að sér að hafa umsjón með öllum fjármálum sem tengjast viðkomandi fasteign, s.s. greiðslu kostnaðar og gjalda og annast samskipti við fjármálastofnanir og opinberar stofnanir. Rekstraruppgjör skal að jafnaði vera aðgengilegt eigendum tvisvar á ári og kostnaðaráætlun skal lög fram á grundvelli ársuppgjörs.
„Við tökum líka að okkur að gera samninga við valin þjónustufyrirtæki vegna þrifa, hreingerninga og viðhaldsvinnu, auk margs konar sérþjónustu sem kann að vera óskað eftir, s.s. vegna trygginga, aðgangs- og öryggismála og veisluþjónustu,“ bætir Daníel við.
Starfsfólk Eingaumsjónar fer jafnframt í vikulegar eftirlitsheimsóknir til að skoða ástand íbúðanna þegar eigendurnir dvelja ekki þar. Jafnframt er í boði að hafa eftirlit með aðgangs- og öryggiskerfum og annast samskipti við öryggisfyrirtæki, ef þess er óskað.
Aukin sérþjónusta í umsjón fasteigna
„Við erum spennt að sjá viðtökurnar sem þessi nýja þjónusta okkar fær,“ segir framkvæmdastjóri Eignaumsjónar, en fyrirtækið hefur verið leiðandi í þjónustu við húsfélög og rekstrarfélög atvinnuhúsa á þriðja ártug. „Á liðnum árum höfum við verið að auka sérþjónustu okkar í tengslum við umsjón fasteigna og nýjasti vaxtarsprotinn þar er íbúðaumsjónin“.