Nov 25, 2024 | Fréttir
Þriðja árið í röð er Eignaumsjón í hópi leiðandi íslenskra fyrirtækja sem hafa uppfyllt ströng skilyrði HR Monitor til að vera útnefnd Mannauðshugsandi fyrirtæki.
„Þetta er ánægjuleg viðurkenning fyrir okkar 50 manna fyrirtæki og hvatning til að halda áfarm og gera enn betur,“ segir Daníel Árnason, framkvæmdastjóri Eignaumsjónar, um viðurkenningu HM Monitor.
Mánaðarlegar mælingar
Til að vera meðal leiðandi íslenskra fyrirtækja sem uppfylla ströng skilyrði HR Monitor til að vera útnefnd Mannauðshugsandi fyrirtæki þarf að hafa á 12 mánaða tímabili keyrt mannauðsmælingar meðal allra starfsmanna fyrirtækisins í hverjum ársfjórðungi eða frá fjórum til tólf sinnum á líðandi ári.
Með þessu verklagi er sýnt í verki að mannauður skiptir fyrirtækið miklu máli og jafnframt hafa stjórnendur Eignaumsjónar öðlast innsýn í viðhorf starfsfólks til fyrirtækisins, bæði í heildina og innan sviða, deilda og vinnuteyma.
Liður í að gera gott fyrirtæki betra
„Þetta er gott verkfæri til að fá endurgjöf frá starfsfólki og niðurstöðurnar nýtast til að bæta starfsumhverfið og koma betur til móts við fólkið okkar og þessar kannanir eru liður í að gera gott fyrirtæki betra,“ segir framkvæmdastjóri Eignaumsjónar.
Jun 28, 2024 | Fréttir
Starfsfólk og skrifstofa Fjöleigna flytur í dag frá Tryggvagötu 11 að Suðurlandsbraut 30, þar sem sameinuð skrifstofa Fjöleigna og Eignaumsjónar tekur til starfa á mánudaginn, 1. júlí 2024.
„Það er ánægjulegt að fá þau Ingibjörgu Önnu, Halldór, Birgi Þór, Guðríði, Lindu og Róbert til starfa með okkur á mánudaginn og við bjóðum þau hjartanlega velkomin,“ segir Daníel Árnason, framkvæmdastjóri Eignaumsjónar.
Gengur vonandi hratt og vel fyrir sig
„Við hlökkum til að koma inn í starfsumhverfi Eignaumsjónar og sinna eftir sem áður okkar húsfélögum hjá Fjöleignum, sem og öðrum spennandi verkefnum,“ segir Ingibjörg Anna Björnsdóttir. „Það er von okkar að þessi sameining á starfsemi Fjöleigna og Eignaumsjónar gangi hratt og vel fyrir sig og verði öllum til hagsbóta.“
Fyrst í stað verður hægt að hringja áfram í símanúmer Fjöleigna, 531-6000 og senda tölvupóst í netfangið fjoleignir@fjoleignir.is, en unnið er að því að koma öllum gögnum og upplýsingum frá Fjöleignum inn í verkumsjónarkerfi og vinnuferla Eignaumsjónar, þ. á m. inn í Húsbókina, mínar síður eigenda.
Feb 15, 2024 | Fréttir
Eignaumsjón leitar að áhugasömum og lausnamiðuðum aðalbókara til starfa í lifandi og skemmtilegu starfsumhverfi. Aðalbókari ber ábyrgð á bókhaldi og reikningshaldi viðskiptavina félagsins og er faglegur leiðtogi teyma.
Eignaumsjón vinnur að þróun á nýju bókhalds- og uppgjörskerfis og verður aðalbókari í mikilvægu hlutverki við þróun þess og innleiðingu.
Helstu viðfangsefni og ábyrgð
Aðalbókari ber ábyrgð á gæðum bókhalds og uppgjöra viðskiptavina, skipulagningu og tímaáætlunum teyma og framkvæmd rekstraruppgjöra viðskiptavina. Aðalbókari ber enn fremur ábyrgð á gerð og yfirferð ársreikninga viðskiptavina, markmiðasetningu teyma, eftirfylgni með árangri og útgáfu reikninga fyrir Eignaumsjón. Aðalbókari tekur þátt í þróun upplýsingakerfis fyrirtækisins og verkferla.
Menntunar- og hæfniskröfur
- Menntun á sviði fjármála- eða viðskiptafræði
- Haldbær reynsla sem nýtist í starfi
- Frumkvæði og metnaður til að ná árangri í starfi
- Fagmennska, sjálfstæð vinnubrögð og nákvæm vinnubrögð
- Góð samskiptafærni, lipurð og jákvætt viðmót
- Góð þekking á excel
- Þekking á DK bókhaldskerfi er kostur
- Góð almenn tölvukunnátta
Umsóknarfrestur til 26. febrúar 2024
Áhugasamir einstaklingar, óháð kyni, eru hvattir til að sækja um starfið en umsóknarfrestur er til og með 26. febrúar nk. Farið verður með allar umsóknir og fyrirspurnir sem trúnaðarmál og þeim svarað.
Umsókn skal fylla út á heimasíðu Hagvangs eða á Alfreð. Óskað er eftir að umsókn fylgi greinargóð ferilská og kynningarbréf, þar sem greint er frá ástæðu umsóknar og hæfni viðkomandi til að gegna starfinu. Nánari upplýsingar um starfið veitir Þórdís Sif Arnarsdóttir, ráðgjafi hjá Hagvangi, thordis@hagvangur.is.
Nov 29, 2023 | Fréttir
Sævar Þór Sigfússon er nýr starfsmaður á upplýsingatæknisviði, nýju stoðsviði sem hefur umsjón með tölvutæknimálum Eignaumsjónar.
Sævar er menntaður tölvunarfræðingur frá Háskóla Íslands og kemur til Eignaumsjónar frá Advania, þar sem hann starfaði sem hugbúnaðarsérfræðingur. Þar áður starfaði hann sem sérfræðingur í aðgangsstýringum hjá Origo.
Hjá Eignaumsjón vinnur Sævar við vöruhús gagna, þ. á m. þróun og umsjón hugbúnaðar, tölfræði og nýsköpun í framsetningu gagna svo sem fyrir Húsbókina – mínar síður viðskiptavina, uppfærslur á vél- og tæknibúnaði, kennslu o.fl. tengt tölvutækni.
Um Eignaumsjón
Eignaumsjón hf. býr að 23 ára þekkingu og reynslu í þjónustu við húsfélög og rekstrarfélög atvinnuhúsnæðis. Félagið hefur umsjón með daglegum rekstri rúmlega 900 virkra félaga með tæplega 19.300 fasteignum og er umsvifamesta fyrirtæki landsins á þessu sviði. Áhersla er lögð á hlutlausa nálgun, öryggi, gæðamál og skýra verkferla með það að markmiði að gera rekstur fasteigna markvissari og ódýrari, auka upplýsingaflæði til eigenda og auðvelda störf stjórna.