Starfsfólki Eignaumsjónar hefur verið skipt upp í tvö teymi sem vinna heima til skiptis, viku í senn, til að tryggja sem best að dagleg starfsemi félagsins fyrir þau hartnær 600 hús- og rekstrarfélög sem eru í þjónustu hjá félaginu haldist óbreytt.
Með þessu fyrirkomulagi er vonast til að ekki þurfi að loka skrifstofu félagsins ef smit kemur upp hjá starfsfólki, þó svo kappkostað sé að fylgja tilmælum Landlæknis um sóttvarnir.
Enn fremur eru viðskiptavinir Eignaumsjónar hvattir til að takmarka heimsóknir á skrifstofuna á Suðurlandsbraut 30 eins og kostur er. Þangað er eftir sem áður hægt að koma með gögn eða sækja gögn sem hafa verið pöntuð en hvatt er til þess að almennar fyrirspurnir og samskipti við þjónustuver Eignaumsjónar fari fram í síma 585-4800 eða með tölvupósti á netfangið thjonusta@eignaumsjon.is. Jafnframt er hægt að hafa samband í netspjalli á heimasíðu okkar, eignaumsjon.is. Þá skal einnig áréttað að þeir sem það kjósa geta skilað inn gögnum í póstkassa Eignaumsjónar á suðurhlið/bakhlið Suðurlandsbrautar 30.
Flestöllum boðuðum aðalfundum frestað
Stað mála varðandi aðalfundi húsfélaga í íbúðar- og atvinnufélögum er í dag sú að nánast öllum þegar boðuðum aðalfundum á vegum Eignaumsjónar hefur nú verið frestað í samráði við stjórnir eða formenn viðkomandi húsfélaga. Jafnframt verða aðalfundir á vegum Eignaumsjónar ekki boðaðir að nýju fyrr en samkomubanni stjórnvalda vegna kórónaveirunnar hefur verið aflétt. Það hófst í gær og gildir í fjórar vikur, eða fram að páskum um miðjan aprílmánuð.
Að gefnu tilefni skal áréttað að þó samkomubann stjórnvalda miðist við 100 manna samkomur var strax ákveðið vegna almannaheilla að fresta fyrirhuguðum aðalfundum hjá Eignaumsjón þar til samkomubanninu hefur verið aflétt. Var ekki síst horft til þess að margir eigendur í fjöleignarhúsum vilja ekki mæta á fundi við þessar aðstæður af ótta við smit. Því væri viðbúið að þátttaka á aðalfundum yrði takmarkaðri en ella og mætti jafnvel halda því fram að það væri verið að takmarka rétt þeirra sem ekki vilja mæta við þessar aðstæður til þátttöku í aðalfundi húsfélags. Var því strax ráðist í það verkefni að kanna hvort fresta mætti þegar boðuðum fundum, í samráði við stjórnir og formenn, og er nú búið að fresta flestöllum boðuðum aðalfundum en þó eru nokkrar undantekningar þar á.