Við notkun eftirlitsmyndavéla fer fram rafræn vöktun. Þegar jafnframt fer fram upptaka, er um að ræða vinnslu persónuupplýsinga. Í lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga eru persónupplýsingar skilgreindar sem sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna. Af skilgreiningunni má ráða að þær upplýsingar sem safnast vegna notkunar eftirlitsmyndavéla geta fallið hér undir ef hægt er að bera kennsl á vegfarandann og segja má að myndin beri með sér upplýsingar um hann.
Um rafræna vöktun gilda ákvæði laga nr. 77/2000 og reglur nr. 837/2006 um rafræna vöktun. Rafræn vöktun er vöktun sem er viðvarandi eða endurtekin reglulega og felur í sér eftirlit með tilteknum einstaklingum með fjarstýrðum eða sjálfvirkum búnaði, og fer fram á almannafæri eða á svæði sem takmarkaður hópur fólks fer um að jafnaði, sbr. 6. tölul. 2. gr. pul. Áður en menn hefja rafræna vöktun með eftirlitsmyndavélum þarf að ganga úr skugga um að markmiðinu með vöktuninni sé ekki unnt að ná með öðrum og vægari úrræðum, og einnig þarf að fræða þá sem sæta vöktuninni, m.a. um hvaða búnaður sé notaður, tilgang vöktunar, og hvernig farið verði með efni sem safnast, sbr. 10. gr. reglnanna.
Varðandi lögmæti vöktunarinnar skal tekið fram að samkvæmt 4. gr. laganna, er rafræn vöktun ávallt háð því skilyrði að hún fari fram í málefnalegum tilgangi. Ef rafræn vöktun með eftirlitsmyndavélum er viðhöfð í þeim tilgangi að gæta öryggis eða til að verja eigur viðkomandi þá er ekki heimilt að nota slíkar myndavélar til að fylgjast með umferð nágranna.
Rafræn vöktun ekki háð leyfi Persónuverndar en öll rafræn vöktun er hins vegar tilkynningarskyld til stofnunarinnar nema sú sem fer einungis fram í öryggis- og eignavörsluskyni, enda hafi skilyrðum laga um fræðslu og viðvaranir verið fullnægt sem og gildandi sérreglum um framkvæmd slíkrar vöktunar, sbr. 7. gr. reglnanna. Því hefur almennt verið talið að uppsetning öryggismyndavéla á einkalóð sé heimil, að því gefnu að það sé í öryggis- og eignarvörslutilgangi.
Samkvæmt 3. gr. reglna nr. 837/2006 er vöktun með leynd óheimil nema hún styðjist við lagaheimild eða úrskurð dómara.
Þá verður öll rafræn vöktun að vera í samræmi við 7. gr. laga nr. 77/2000 en þar er kveðið á um meginreglur um gæði gagna og vinnslu. Þar er m.a. kveðið á um að við meðferð persónuupplýsinga skuli þess gætt að þær séu unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti, fengnar í skýrum yfirlýstum og málefnalegum tilgangi, ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi, að þær séu nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar og ekki varðveittar á persónugreinanlegu formi lengur en þörf krefur miðað við tilgang vinnslunnar. Af þessu ákvæði má ráða að rafrænni vöktun á stað eins og íbúðargötu, þar sem einstaklingar eiga fastan dvalarstað og verja frítíma sínum, verður að stilla hóf og virða ber einkalífsrétt íbúa og annarra vegfaranda. Því skal vöktun hvers íbúa einvörðungu beinast að hans eigin eignum.
Ekki er gert ráð fyrir því að einkaaðilar viðhafi vöktun á almannafæri. Almennt hefur verið miðað við það að íbúum sé veitt tilskilin fræðsla samkvæmt 20. og 21. gr. laganna en hvað varðar þá sem fara um umrædda götu eða gegnum ákveðið svæði er nægilegt að sett sé upp skilti eða sambærileg tilkynning um að á staðnum sé viðhöfð rafræn vöktun.
Tekið af heimasíðu Persónuverndar í ágúst 2013