Eignaumsjón hefur sótt um endurgreiðslur virðisaukaskatts að upphæð 323 milljónir króna það sem af er þessu ári fyrir hönd húsfélaga í þjónustu félagsins vegna átaksins Allir vinna sem nær til endurbóta fasteigna, viðhalds og reksturs. Til samanburðar námu VSK-endurgreiðslur sem Eignaumsjón hafði milligöngu um að innheimta árið 2020 samtals 358 milljónum króna.
Átakið Allir vinna er hluti af aðgerðum stjórnvalda til að bregðast við áhrifum COVID-19 á efnahagslífið. Það felur m.a. í sér tímabundna hækkun á endurgreiðslu virðisaukaskatts, úr 60% í 100%, af vinnu manna við nýbyggingar, viðhald og endurbætur íbúðar- og frístunahúsnæðis. Það nær einnig til endurgreiðslu á virðisaukaskatti af þjónustu vegna hönnunar og eftirlits með byggingum, sem og vinnu manna vegna heimilisaðstoðar eða reglulegrar umhirðu íbúðarhúsnæðis.
Framkvæmd endurgreiðslu
Það er verkkaupi sem getur fengið endurgreiddan virðisaukaskatt frá Skattinum af vinnu manna samkvæmt ákvæðum átaksins Allir vinna. Viðkomandi húsfélag er verkkaupi og sækir Eignaumsjón um endurgreiðslu fyrir hönd sinna húsfélaga. Í stórum viðhaldsframkvæmdum getur endurgreiðslan oft á tíðum orðið umtalsverð upphæð og skal áréttað, nú þegar styttist í að átakinu ljúki, að húsfélög sem eru í framkvæmdum þurfa að vera búin að greiða reikninga, áður en hægt er að fá endurgreiðslu á virðisaukaskatti frá Skattinum. Endurgreiðslurnar renna til húsfélagsins en tekið er tilliti til þeirra þegar framkvæmdauppgjör er unnið í lok viðkomandi viðhaldsverks.
Ljóst er að Allir vinna átakið hefur mælst vel fyrir. Samkvæmt núgildandi reglum er gildistími 100% endurgreiðslu virðisaukaskatts út þetta ár og ekki liggur fyrir á þessari stundu hvort átakið haldi áfram í óbreyttri mynd á næsta ári.