Nýlegur hæstaréttardómur um að seljendur í fjölbýlihúsi hafi vanrækt upplýsingaskyldu sína um samskiptavanda íbúa í húsinu þannig að galli teljist á fasteign í skilningi laga er áminning til allra sem sýsla með húsfélagayfirlýsingar vegna fasteignaviðskipta um að vanda til verka.
Í 25. grein laga um fjöleignarhús er sú skylda lögð á seljanda fasteignar að kynna fyrir kaupanda eignaskiptayfirlýsingu, eignaskiptasamning, sérstakar samþykktir húsfélagsins ef um þær er að ræða, reikninga húsfélagsins og stöðu og framlög eignarhlutans gagnvart því og hússjóði þess. Þá skal seljandi enn fremur gefa fullnægjandi og tæmandi upplýsingar um yfirstandandi eða fyrirhugaðar framkvæmdir, viðgerðir eða endurbætur.
Yfirlýsing húsfélags hluti af sölugögnum fasteignar
Í fjöleignarhúsalögunum segir enn fremur að seljandi skuli jafnan, ef því verður við komið, afla og leggja fram vottorð eða yfirlýsingu frá húsfélaginu og í lögum um sölu fasteigna nr. 70/2015, 11. grein, er beinlínis kveðið á um að í söluyfirliti fasteigna skuli upplýst um húsgjöld og yfirstandandi eða væntanlegar framkvæmdir sem búið er að ákveða á fundi húsfélags, sé um fjöleignarhús að ræða, og um stöðu eiganda gagnvart hússjóði og framkvæmdasjóði húsfélags. Eignaskiptayfirlýsing eða samningur, sé um fjöleignarhús að ræða, skuli einnig vera hluti sölugagna sem og önnur atriði sem kunnugt er um, svo sem skýrslur um ástand eignar sem gerðar hafa verið. Þá skal árétta skyldu kaupanda að skoða fyrirhugaða fasteign gaumgæfilega, sem og skyldu seljanda að upplýsa kaupanda um galla á eigninni.
Eignaumsjón annast útgáfu yfirlýsinga fyrir húsfélög sem eru í þjónustu hjá félaginu, samkvæmt beiðni seljanda, eða fasteignasala seljanda. Ávallt er kappkostað að vanda útfyllingu slíkra yfirlýsinga því fasteignaviðskipti snúast um háar fjárhæðir og rangar eða ófullnægjandi upplýsingar geta leitt af sér ágreining og jafnvel málaferli.