Aðventan er undirbúningstími aðalfunda hjá Eignaumsjón og á dögunum kom starfsfólk Eignaumsjónar og fundastjórateymið saman til skrafs og ráðagerða. Fyrstu aðalfundir hefjast 9. janúar næstkomandi en alls er áætlað að halda vel á sjöunda hundrað aðaldundi fyrstu fjóra mánuði ársins 2023, en lögum samkvæmt skal halda aðalfundi hús- og rekstrarfélaga fyrir lok aprílmánaðar ár hvert.
Samkvæmt fyrirliggjandi áætlun verða haldnir um 620 fundir á 60 fundardögum fram til aprílloka, sem eru að meðaltali um tíu fundir á dag. Að öllu jöfnu verða aðalfundirnir haldnir frá mánudegi til fimmtudags í fundarsölum Eignaumsjónar að Suðurlandsbraut 30. Þar eru í boði fimm góðir fundarsalir án endurgjalds. Salirnir sem um ræðir eru Múli sem tekur 7-9 manns, Dalur og Reykjaborg sem taka allt að 40 manns hvor og Laugarás og Grensás sem hvor um sig tekur allt að 50 manns. Í þeim tilvikum þegar fundir eru haldnir utan skrifstofu Eignaumsjónar er notast við ýmsa fundarsali, í samráði við stjórnir viðkomandi húsfélaga.
Rétt boðun funda mikilvæg
Mikið er lagt upp úr að rétt sé staðið að boðun aðalfunda, svo tryggt sé að fundir og ákvarðanir verði lögmætar og bindandi fyrir eigendur. Boðun fundanna fer fram með eins góðum fyrirvara og hægt er, samkvæmt ramma fjöleignarhúsalaganna, og í samráði við stjórnir viðkomandi húsfélaga.
Allir eigendur, sem hafa skráð sig með tölvupósti í Húsbók húsfélagsins, fá sent rafrænt fundarboð/tölvupóst. Hvetjum við alla sem hafa ekki nú þegar virkjað Húsbókina sína til að gera það á heimasíðu Eignaumsjónar, www.eignaumsjon.is. Fundarboð eru send í bréfpósti á þá eigendur sem eru með skráð lögheimili utan viðkomandi húseignar og formenn húsfélaga hengja einnig upp fundarboð í sameign.
Gögn aðalfundar aðgengileg á Húsbók
Húsbókin er rafræn upplýsingagátt fyrir stjórnir og eigendur í húsfélögum í þjónustu hjá Eignaumsjón og þar er m.a. hægt að skoða húsgjaldaseðla, fundargerðir og fleiri upplýsingar sem tengjast húsfélaginu.
Tímanlega fyrir aðalfund 2023 geta íbúðaeigendur nálgast fundargögn síns húsfélags í Húsbókinni. Þar verður líka hægt að skoða ársreikning fyrir árið 2022, kostnaðar- og húsgjaldaáætlun fyrir árið 2023, aðalfundarboðið og fleiri gögn tengd starfsemi húsfélagsins.
Til að komast inn í Húsbókina þarf að smella á hnapp efst til hægri á heimasíðunni og skrá kennitölu viðkomandi. Í Húsbókinni er líka m.a. hægt að óska eftir að fá fundaboð send rafrænt, sjá notendastillingar og skoða vildarkjör/afslætti sem bjóðast öllum viðskiptavinum Eignaumsjónar.
Aðalfundur oft eini vettvangur skoðanaskipta
Aðalfundirnir hafa mikla þýðingu í starfsemi hvers húsfélags. Þar skal tryggja að mál sem brenna á eigendum séu tekin fyrir og til lykta leidd, enda er aðalfundur oft eini vettvangur skoðanaskipta hjá sumum félögum og því er mikilvægt að þar fái allar raddir að njóta sín.