Alls er búið er að halda 331 aðalfund frá ármótum til dagsins í dag hjá hús- og rekstrarfélögum sem eru í þjónustu hjá Eignaumsjón og einungis eftir að halda örfáa fundi, en samkvæmt 59. grein laga um fjöleignarhús skal halda aðalfundi húsfélaga fyrir lok aprílmánaðar ár hvert.
„Aðalfundatíminn er ávallt áhugaverður, enda gefst þá tækifæri til að hitta viðskiptavini okkar og heyra hvað helst brennur á þeim,“ segir Páll Þór Ármann, forstöðumaður þjónustusviðs Eignaumsjónar.
Sorp- og rafbílamál
Aðspurður hvað brenni helst á fólki á aðalfundum, fyrir utan afgreiðslu ársreikninga og fjármála félaganna, segir Páll að bókanir vegna sorpmála, s.s. sorpflokkunar og umgengni um sorpgeymslur, séu ótrúlega algengar á aðalfundum.
„Það er bara eins og við kunnum bara ekki að ganga um sorpgeymslur og fylgja reglum um sorpflokkun. Þá er líka mikil þörf á að sveitarfélög og fyrirtæki sem sinna sorphirðumálum geri átak í að koma þessum málum í betra horf, í takt við þá umræðu og kröfur sem eru í þjóðfélaginu í dag um að auka enn frekar endurvinnslu og draga úr sóun.“
Annað sem brennur á íbúum fjöleignarhúsa, einkum þá stærri húsfélögum, eru hleðslumál rafbíla og þróun þeirra mála, enda eru þar flókin viðfangsefni sem þarf að leysa fyrr en seinna.
Umhverfismál sívaxandi þáttur
„Umhverfimál eru sívaxandi þáttur í því sem viðskiptavinir okkar eru að velta fyrir sér. Sömuleiðis eru viðhaldsmál, ekki síst í eldri húseignum, alltaf umfangsmikill málaflokkur og þar er ánægjulegt að skynja aukinn vilja og skilning á því að færa deildarskipt húsfélög í eitt félag sem tekur utan um ytra byrði húss og lóðar. Á þann hátt er allur rekstur húsfélagsins færður í eitt deildarskipt félag sem eykur hagræðingu og einfaldar öll samskipti,“ segir Páll að lokum.