Það sem af er þessu ári hefur Eignaumsjón sótt um endurgreiðslu á um 260 milljónum króna fyrir hönd húsfélaga í þjónustu félagsins vegna endurbóta, viðhalds og reksturs í tengslum við átakið Allir vinna. Til samanburðar námu endurgreiðslur á virðisaukaskatti til húsfélaga hjá Eignaumsjón allt árið 2019 samtals 169 milljónum króna. Þá hefur Skatturinn fallist á að endurgreiðslur vegna Allir vinna átaksins nái til hluta af vinnu við húsumsjón Eignaumsjónar.
Það er ljóst að átakið Allir vinna er að skila árangri og fyrr í haust var tilkynnt um framlengingu þess til ársloka 2021 í stað ársloka 2020. Skatturinn sér um framkvæmd átaksins og fyrstu níu mánuði þessa árs höfðu embættinu borist um 26.500 umsóknir um endurgreiðslu á virðisaukaskatti, samanborið við ríflega 7.000 umsóknir á sama tímabili árið 2019.
Nýjung að endurgreiða virðisaukaskatt af umhirðu íbúðarhúsnæðis
Allir vinna er hluti aðgerða sem stjórnvöld gripu til fyrri hluta þessa árs til að bregðast við áhrifum COVID-19 á efnahagslífið. Það felur í sér hækkun á endurgreiðslu virðisaukaskatts úr 60% í 100% af vinnu manna en heimildir til endurgreiðslu eru töluvert víðtækari núna heldur en þegar gripið var tímabundið til þessa sama úrræðis eftir hrun. Auk vinnu manna á byggingarstað við nýbyggingar, viðhald og endurbætur íbúðarhúsnæðis og frístunahúsnæðis, nær endurgreiðslan núna einnig til þjónustu vegna hönnunar og eftirlits með byggingum, viðhaldi og endurbótum íbúðar- og frístundahúsnæðis og vinnu manna vegna heimilisaðstoðar eða reglulegrar umhirðu íbúðarhúsnæðis.
Eignaumsjón hefur árum saman gætt þess að virðisaukaskattsendurgreiðslur af byggingarframkvæmdum og viðhaldi skili sér til húsfélaga í þjónustu félagsins og nú geta húsfélög einnig fengið endurgreiddan virðisaukaskatt af vinnu vegna ýmiskonar þjónustu. Má þar nefna vinnu við þrif í sameign, þrif og sótthreinsun á sorpgeymslum og sorpílátum og garðvinnu, s.s. garðslátt og trjá- og runnaklippingar.
Húsumsjón Eignaumsjónar að hluta undanþegin virðisaukaskatti
Þá er ánægjulegt að greina frá því að Skatturinn hefur fallist á að hluti af vinnu við húsumsjón Eignaumsjónar falli undir ákvæði um reglubundna umhirðu íbúðarhúsnæðis. Vinna er þegar hafin við að sækja um endurgreiðslur fyrir þau hús- og atvinnufélög sem valið hafa að láta Eignaumsjón annast reglubundna umsjón, eftirlit og fyrirbyggjandi viðhald með sameign fasteignar sinnar – og tryggja þannig að ástand hennar sé ávallt eins og best verður á kostið.
Það sem af er þessu ári hefur Eignaumsjón haft milligöngu um nærri 100 milljónum króna hærri virðisaukaskattsendurgreiðslur til húsfélaga sem eru í þjónustu hjá félaginu en allt árið í fyrra, eða um 260 milljónir á móti 169 milljónum og viðbúið að talan í ár eigi eftir að hætta umtalsvert og fara yfir 300 milljónir króna ef að líkum lætur.
Framkvæmd endurgreiðslu
Það er verkkaupi sem getur fengið endurgreiddan virðisaukaskatt frá Skattinum af vinnu manna samkvæmt ákvæðum átaksins Allir vinna. Viðkomandi húsfélag er verkkaupi og sækir Eignaumsjón jafnt og þétt yfir árið um endurgreiðslu fyrir hönd sinna húsfélaga. Í stórum viðhaldsframkvæmdum getur endurgreiðslan oft á tíðum orðið umtalsverð upphæð.
Skal að lokum áréttað að húsfélög þurfa að vera búin að greiða reikninga, áður en hægt er að fá endurgreiðslu frá Skattinum á virðisaukaskatti. Því er mikilvægt að húsfélög fjármagni framkvæmdir sínar til að tryggja skil gagnvart verktökum og í framhaldinu til að sækja um endurgreiðslu virðisaukaskatts. Endurgreiðslan rennur til húsfélagsins en tekið tillit til hennar þegar framkvæmdauppgjör er unnið í lok viðkomandi viðhaldsverks.