„Tími aðalfunda, frá janúarbyrjun til aprílloka, er áhugaverður því þá gefst tækifæri til að hitta viðskiptavini augliti til auglits og heyra hvað er efst á baugi hjá þeim,“ segir Þór Gíslason, sem nýlega kom til starfa hjá félaginu sem ráðgjafi á þjónustusviði. Hann er líka í fundarteymi Eignaumsjónar, enda hokinn af reynslu eftir að hafa starfað sem fundarstjóri hjá Eignaumsjón svo árum skiptir.
Eignaumsjón hf. er umsvifamesta fyrirtæki landsins í þjónustu við húsfélög og rekstrarfélög fasteigna og býr að yfir 20 ára þekkingu og reynslu viðað halda aðalfundi húsfélaga og rekstrarfélaga atvinnuhúsnæðis. Á döfinni er að halda á sjöunda hundrað aðalfundi fram að apríllokum.
Bjóðum húsfélög velkomin í viðskipti
„Ný húsfélög eru að sjálfsögðu velkomin í viðskipti til okkar,“ segir Þór og bætir við að það er hans reynsla sem fundarstjóri hjá Eignaumsjón til margra ára að almenn ánægja sé hjá bæði stjórnum húsfélaga og eigendum með þá þjónustu sem félögin eru að fá.
„Við einföldum störf hússtjórna, leysum hratt og örugglega úr málum og spörum þeim tíma, með það að markmiði að ná fram hagræðingu og árangri í rekstrinum.“
Aukin áhersla á rafræna boðun funda
Mikið er lagt upp úr undirbúningi aðalfunda hjá Eignaumsjón og rétt sé staðið að boðun þeirra, svo fundir verði löglegir og bindandi fyrir þátttakendur. Til að tryggt sé að fundarboð skili sér örugglega til eigenda er æ meiri áhersla lögð á rafræna boðun aðalfunda hjá Eignaumsjón, sem er líka umhverfisvænna og dregur verulega úr pappírsnotkun.
„Á aðalfundi er fyrst og fremst rætt um innri málefni félagsins; ársreikningur og kostnaðar- og húsgjaldaáætlanir afgreiddar, félaginu kosin stjórn og ákvarðanir teknar um næstu áfanga í starfsemi viðkomandi félags,“ segir Þór.
Viðbúið að sorpmál og hleðsla rafbíla verði í brennidepli
„Það er líka viðbúið að okkar mati að sorpmál verði töluvert í brennidepli á aðalfundum á þessu ári vegna þeirra breytinga sem eru í farvatninu með gildistöku laga um hringrásarhagkerfi nú um áramótin. Til að mæta ákvæðum laganna verður byrjað að safna lífrænum eldhúsúrgangi á höfuðborgarsvæðinu í vor og innleitt nýtt flokkunarkerfi úrgangs á vegum Sorpu og sveitarfélaganna á svæðinu, eins og fram kom á mjög vel sóttum hádegisfundi hjá okkur í haust,“ segir Þór en áréttar að stefnt sé að því af hálfu SORPU að íbúarnir finni lítið fyrir þessum breytingum.
„Það verður þó að teljast líklegt að svo umfangsmiklar breytingar komi til umræðu á mörgum aðalfundum í tengslum við umræðum um sorpflokkun og umgengni um sorpgeymslur.“
Hleðsla rafbíla er annað mál sem brennur á mörgum húsfélögum. Mörg þeirra hafa verið að nýta sér hlutlausa úttekt Eignaumsjónar á hleðsluaðstöðu og þeim félögum fer einnig fjölgandi sem eru að láta Eignaumsjón halda utan um innheimtu vegna rafbílanotkunar og rukka kostnaðinn með húsgjöldum viðkomandi rafbílaeigenda, sem sparar færslugjöld og viðkomandi njóta hagstæðra kjara á rafmagni sem bjóðast viðskiptavinum Eignaumsjónar. Þá er alltaf töluvert um mál sem snúa að dýrahaldi í fjölbýlishúsum, setningu húsreglna og fyrirkomulagi svalalokana.
Fundargögn aðgengileg í Húsbók – mínar síður á vef Eignaumsjónar
Tímanlega fyrir aðalfund geta eigendur húsfélaga í þjónustu hjá Eignaumsjón nálgast fundargögn síns húsfélags í Húsbókinni. Þar má þá finna ársreikning fyrir árið 2022 og kostnaðar- og húsgjaldaáætlun fyrir árið 2023, ásamt fundarboði og öðrum gögnum sem leggja á fyrir fundinn. Í Húsbókinni er líka leitast við að safna saman og gera aðgengileg öll helstu gögn viðkomandi húsfélags, þ. á m. eldri ársreikninga og aðalfundargögn húsfélaga sem hafa verið í þjónustu til lengri tíma hjá Eignaumsjón. Einnig er hægt að senda ýmsar þjónustubeiðnir rafrænt í gegnum Húsbókina, s.s. tilkynningar um nafnabreytingar og eigendaskipti, breytingar á heimilisfangi, húsfélagsyfirlýsingar, beiðnir vegna útlagðs kostnaðar og fleira.
Viðtalið við Þór Gíslason, sem kom nýlega til starfa hjá Eignaumsjón, birtist í hverfisblöðum Grafarvogs, Grafarholts og Árbæjar í janúar 2023.